Blaksamband Íslands tilkynnti um val á blakmanni og blakkonu ársins 2020 í hádeginu í dag. Viðburðurinn var í beinni á Facebook með íþróttamönnunum í gegnum fjarfundabúnaðinn Teams.
Blakkona ársins 2020 er Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir
Jóna Guðlaug er uppalin hjá Þrótti í Neskaupstað og er nú á sínu þriðja keppnistímabili með Hylte/Halmstad í Svíþjóð. Hún hefur verið meira og minna að spila í útlöndum síðan hún var 16 ára gömul og er án efa ein af okkar bestu blakkonum sem eru að spila í dag.
Sænska úrvalsdeildin var stöðvuð á síðustu leiktíð og var lið hennar í 3. sæti deildarinnar en Jóna Guðlaug var fyrirliði liðsins og átti frábært tímabil.
Um árabil hefur Jóna Guðlaug verið fyrirliði íslenska landsliðsins en hún er í 2. sæti yfir fjölda landsleikja frá upphafi með 84 leiki. Hún gat þó ekki spilað með liðinu á NOVOTEL CUP í Luxemborg í janúar vegna meiðsla.
Í dag er Jóna Guðlaug og lið hennar á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar, ekki tapað hrinu enn sem komið er en Jóna er fastamaður í byrjunarliðinu og hefur sjálf átt gott tímabil þrátt fyrir heimsfaraldur.
Jóna Guðlaug er frábær íþróttakona sem er fyrirmynd fyrir unga og efnilega blakara og við óskum henni innilega til hamingju með þessa útnefningu. Af þessu tilefni veita BLÍ og Ólympíufjölskyldan ÍSÍ henni viðurkenningu.
Blakmaður ársins 2020 er Ævarr Freyr Birgisson
Ævarr Freyr er uppalinn hjá KA á Akureyri og leikur nú sitt þriðja tímabil með Marienlyst í Danmörku. Hann hélt utan í nám haustið 2018 og komst strax að hjá Marienlyst enda er Ævarr einn af okkar bestu blakmönnum sem eru að spila í dag.
Ævarr og lið hans enduðu í 2. sæti dönsku bikarkeppninnar á síðasta tímabili en liðið datt óvænt út úr keppni um danska meistaratitilinn í 8 liða úrslitum.
Ævarr spilaði mjög vel með A landsliðinu sem vann til bronsverðlauna í NOVOTEL CUP í byrjun janúar og á nú 37 landsleiki að baki fyrir landsliðið.
Á yfirstandandi tímabili er Ævarr lykilleikmaður í liði Marienlyst en liðið er að berjast um toppsætin í dönsku úrvalsdeildinni og stefnir á titla á þessu leiktímabili.
Ævarr Freyr er frábær íþróttamaður og frábær fyrirmynd ungra og efnilegra blakmanna og við hjá BLÍ óskum honum innilega til hamingju með þessa útnefningu annað árið í röð. Af þessu tilefni veita BLÍ og Ólympíufjölskyldan ÍSÍ honum viðurkenningu.