Borja González Vicente nýr afreksstjóri BLÍ

Blaksamband Íslands hefur ráðið Borja González Vicente sem afreksstjóra sambandsins og mun hann einnig taka að sér yfirþjálfun karlalandsliðsins í blaki.

Starfið var auglýst á alþjóðavísu í desember og sá Ráðum-ráðningastofa um alla vinnu við ráðningarferlið. Mjög margar umsóknir bárust viðs vegar úr heiminum og sá ráðningastofan um að flokka þær og vinna. Að lokum voru þrír umsækjendur eftir sem voru kallaðir í viðtal og í kjölfarið var Borja ráðinn.

Borja er fæddur árið 1982 og er hann menntaður í sagnfræði ásamt því að hafa klárað meistaranám í kennslufræðum. Borja hefur víðtæka menntun og starfsreynslu í þjálfarafræðum bæði í inniblaki sem og í strandblaki. Hann hefur komið að afreksstarfi innan Blaksambandsins frá því hann flutti ásamt eiginkonu sinni til Íslands árið 2015, bæði sem landsliðsþjálfari U -liða og A liða sem og aðkomu að skólablaki á Íslandi. Borja kom til landsins til að taka við þjálfun Þróttar í Neskaupstað en hann er með reynslu sem þjálfari og leikmaður frá Spáni, Belgíu, Nýja Sjálandi, Cook Island og Guam. Borja var 4 ár hjá Þrótti Nes (Fjarðabyggð). Haustið 2019 fluttu þau í Mosfellsbæ og tók hann við þjálfun kvennaliðs Aftureldingar og síðar einnig við karlaliði félagsins.

Helstu hlutverk nýs afreksstjóra verður að halda áfram að þróa og innleiða framstíðarsýn blaks á Íslandi. Borja mun leiða þjálfaramenntun, halda utan um faglegt starf allra landsliða Blaksambandsins ásamt því að sinna útbreiðslustarfi blaks á Íslandi. Samstarf við þjálfara félagsliða og félögin sjálf er eitt af miklvægum verkefnum þegar kemur að þróun ungra og efnilegra leikmanna. Afreksstjóri mun líka koma að skipulagningu og utanumhaldi afreks- og hæfileikabúða Blaksambandsins í samstarfi við starfsmenn og þjálfara.

Blaksambandið býður Borja velkominn til starfa!