Blaksamband Íslands hefur opnað fyrir skráningar í Hæfileikabúðir BLÍ 2023 sem haldnar verða í ágúst. Tvennar búðir verða haldnar fyrir krakka á grunnskólaaldri að þessu sinni, 18.-20. ágúst að Varmá í Mosfellsbæ og síðari 25.-27. ágúst á Akureyri.
Búðirnar eru fyrir leikmenn fædda 2008-2011. Skráning fer fram á Sportabler (https://www.sportabler.com/shop/bli) og lokar fyrir skráningu viku áður en búðir hefjast (11.ágúst fyrir Mosó og 18. ágúst fyrir Akureyri). Í hæfileikabúðunum fá allir þátttakendur tækifæri á leiðsögn frá okkar fremstu þjálfurum á landinu auk þess sem boðið verður uppá fyrirlestur milli æfinga. Eftir fyrstu æfingu verður hópnum skipt upp eftir getu svo allir fái æfingar við hæfi.
Búist er við að æfingar byrji á föstudegi kl. 17 og ljúki á sunnudegi kl. 14.
Borja González er yfirþjálfari búðanna í Mosfellsbæ og Oscar Celis á Akureyri en með þeim verða landsliðsþjálfarar unglingalandsliðanna. Mikið verður um að vera hjá unglingalandsliðunum okkar í haust og á næstu árum og eru hæfileikabúðirnar sá vettvangur þar sem þjálfarar yngri landsliðanna geta séð leikmenn og byrja að setja saman hóp fyrir næstu verkefni. Fyrir leikmenn fædda 2005 – 2007 verða haldnar sams konar búðir helgina 15.-17. september á höfuðborgarsvæðinu sem verða undanfari að landsliðshóp.
Í Mosfellsbæ er ekki boðið uppá gistingu en innifalið í verðinu (14.950kr) eru þáttökugjöld, hádegismatur báða dagana, sundferð og bolur.
Á Akureyri er boðið uppá skólagistingu og matur frá föstudagskvöldi fram að hádegi á sunnudag. Ef valin er gisting þá er kostnaðurinn 20.950 en ef ekki þarf gistingu þá er það sama upphæð og í Mosó eða 14.950kr.