Bæði liðin mættu Finnlandi og Svíþjóð á föstudag og töpuðust báðir leikirnir. Stelpurnar áttu góðan leik á móti Svíum og unnu fyrstu hrinuna en töpuðu annarri. Þriðja hrinan var æsispennandi og tapaðist eftir upphækkun. Svíar komu þá fljúgandi inn í fjórðu hrinuna og unnu hana. Stelpurnar töpuðu svo fyrir danska liðinu á laugardag og síðar um daginn kom enn eitt tapið þegar það færeyska vann það íslenska. Þetta þýddi að stelpurnar enduðu í 5. sæti riðilsins og áttu þannig leik við liðið í fjórða sæti sem var Færeyjar. Ísland gerði sér lítið fyrir og vann í morgun 3-1 og átti því enn möguleika á bronsverðlaunum.
Stelpurnar mættu Danmörku í leiknum um bronsið og gekk ekki nógu vel hjá stelpunum. Þetta var sjötti leikur liðsins á þremur dögum og vann Danmörk nokkuð þægilegan 3-0 sigur. Stúlknalið Íslands því í fjórða sæti mótsins í Rovaniemi.
Strákarnir mættu Noregi í fjórðungsúrslitum í gærmorgun. Liðið átti frábæran leik og leika þurfti oddahrinu til að skera úr um hvort liðið færi í undanúrslitin. Noregur vann oddahrinuna og fór í undanúrslitaleikinn gegn Finnum. Ísland spilaði svo við Færeyjar í morgun og kom þá fyrsti sigurleikurinn þegar liðið átti frábæran leik, 3-1 sigur og 5. sætið í höfn.
Sævar Guðmundsson og Ismar Hadziredzepovic dæmdu saman úrslitaleik karla í mótinu, Finnland gegn Danmörku. Leikurinn var góður á að horfa og stóðu þeir sig með stakri prýði í sínum hlutverkum. Danir unnu leikinn 3-1 og urðu NEVZA meistarar U19 2021. Í stúlknaflokki vann lið Finnlands góðan 3-0 sigur á Svíum í úrslitaleiknum og Finnland því NEVZA meistari U19 2021.
Í lok móts var verðlaunaafhending þar sem valið var í draumalið mótsins og því miður var enginn Íslendingur í þeim að þessu sinni. Gestgjafar gáfu verðmætasta leikmanni hvers liðs verðlaun og í stúlknaliðinu var Jóna Margrét Arnarsdóttir verðmætasti leikmaðurinn. Í drengjaliðinu var Valens Torfi Ingimundarson verðmætasti leikmaðurinn.
Íslenski hópurinn hefur verið í góðu yfirlæti hér í Lapplandi, þar sem jólasveinninn býr en sá mætti einmitt í opnunarhátíðina til að blessa mótið. Læt hér eina mynd fylgja þar sem Jólasveinninn fylgist með upphitun hjá íslenska liðinu, og veltir því jafnvel fyrir sér hvort þessir drengir hafi verið góðir í ár og heimsæki þá jafnvel eftir 54 daga.