Árið 2020 fer í sögubækurnar sem ár heimsfaraldurs og fyrir þau víðtæku áhrif sem hann hafði. Áhrifin sem heimsfaraldurinn hafði á Blaksambandið voru mest í upphafi þegar fresta þurfti úrslitum Kjörísbikarsins 13.-15. mars. Ákvörðun um frestunina var tekin þar sem heilt lið var sett í sóttkví um hádegi á föstudegi, eða um það leyti sem var verið að klára að græja Digranes til keppni og vissulega margar vinnustundir farnar í súginn. Það var auðvitað súrt í broti að þurfa að pakka saman og fara í helgarfrí á þessari stundu en ekki grunaði mig að á endanum myndum við þurfa að aflýsa allri keppni sem eftir var vorsins.
Aðeins náðist að klára eina deild á síðasta leiktímabili, 1. deild karla. Öðrum deildum var aflýst og úrslitin látin standa og ekki var keppt um Íslandsmeistaratitilinn í blaki 2020. Starfsmenn sambandsins fóru á hlutabótaleið stjórnvalda í 2 og hálfan mánuð enda lítið í gangi í blakhreyfingunni. Síðan kom sumarið og var frábært að strandblakið gat keppt og klárað sitt mót. Náðum við einnig að halda þjálfaranámskeið í sumar og hæfileikabúðir fyrir yngri ungmennin í ágúst.
Undirbúningur fyrir Íslandsmótið gekk vel í sumar og á yfirstandandi tímabili eru um 100 lið skráð til leiks í 10 deildum. Í september var leikið um Ofurbikarinn 2020 en það mót er nýtt af nálinni þar sem úrvalsdeildarliðin mætast í undirbúningi sínum fyrir keppni í deildinni. Mótið var að þessu sinni haldið á Akureyri og virtist sem liðin öll væru klár í slaginn, bæði á leikvellinum sjálfum og að fylgja ákveðnum sóttvarnarreglum sem settar höfðu verið.
Þrjár deildir af 10 talsins byrjuðu keppni í september. Aðeins náðist þó að spila nokkrar umferðir áður en öllu var skellt í lás þann 7. október og er enn í dag keppnisbann. Það er von okkar allra að við fáum að keppa að nýju strax á nýja árinu en úrvalsdeildarliðin fengu að byrja að æfa 10. desember sl.
Þann 1. ágúst árið 2005 var ég ráðinn framkvæmdastjóri Blaksambands Íslands. Ég fagnaði því 15 ára starfsafmæli á árinu og lengst af var ég eini starfsmaður sambandsins eða til ársins 2017. Á þessum árum hefur sambandið vaxið gríðarlega, úr rúmum 1.600 iðkendum í um 3.300 iðkendur í dag. Fjölgun liða í Íslandsmóti og fjölgun deilda þar af leiðandi og aukning á samningsbundnum tekjum frá ríki og fyrirtækjum hefur auðvitað margfaldað veltuna á þessum árum. Árið 2005 voru landsliðsmálin á mun verri stað en þau eru í dag og fjölgun landsliða á síðustu árum hefur verið jákvæði fyrir afreksmenn í íþróttinni sem margir hverjir hafa leitað út fyrir landsteinana til að spila.
Ég bjóst ekki við því að vinna heima meirihluta ársins 2020 eða að helmingur blakleikja ársins hafi verið felldir niður eða þeim aflýst. Aðeins hafa A landsliðin spilað þrjá leiki hvort á árinu, og var það í upphafi ársins en öllum viðburðum landsliða var aflýst. Unglingalandsliðin okkar eru stór hluti af sambandinu og ekki gott þegar þau fá engin verkefni, en það koma tækifæri síðar.
Við í blakhreyfingunni þurfum að standa saman til að komast í gegnum þetta ástand sem ríkir í samfélaginu. Íþróttin okkar er skilgreind með meðaláhættu á smiti við æfingar eða leiki. Sóttvarnaryfirvöld ráða þegar um er að ræða lokanir og hertar sóttvarnarreglur og er það okkar að fylgja því til að breiða veiruna ekki frekar út. Þolinmæði og úthald til að þrauka af þessar takmarkir þurfum við að sýna og þegar allt fer af stað aftur í keppni verða allir vel undirbúnir með sóttvarnir sínar á hreinu, það er jú lykillinn að því að þetta gangi upp.
Með þessum skrifum hér vil ég þakka öllum fyrir samstarfið á þessu furðulega ári 2020, það eru allir að gera sitt besta í þessum aðstæðum og vonandi fáum við bóluefni fljótt til þess að klára þennan kafla í sögunni. Verkefnin hafa verið krefjandi fyrir okkur hér á skrifstofu BLÍ og mikil áskorun fólgin í því að vinna með sóttvarnaryfirvöldum og ÍSÍ í því að halda sambandinu gangandi. Við finnum það líka frá félögunum að viljinn er að standa af sér þennan storm sem ríkir og stuðningur milli aðila er gríðarlega mikilvægur.
Við hjá Blaksambandinu horfum björtum augum til nýja ársins sem gengur í garð bráðlega og vonum að árið 2021 verði frábært ár!
Við óskum landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Sjáumst á blakvellinum á nýju ári 2021.