NOVOTEL CUP frestað

Íslensku A landsliðin hafa verið á æfingum núna fyrir jólin í undirbúningi sínum fyrir NOVOTEL CUP í Luxemborg. Liðin áttu að fara af stað til Luxemborgar næsta mánudag en mótinu var frestað í dag vegna COVID.

Blaksamband Luxemborgar er mótshaldari NOVOTEL CUP og hafa íslensku A landsliðin verið tíður gestur í mótinu en það fer að jafnaði fram um eða eftir áramótin. Bæði lið voru þar síðast þegar mótið fór fram í byrjun janúar 2020 en um síðustu áramót var mótið ekki haldið vegna COVID. Íslensku liðunum var boðið þátttaka í mótinu sem fara átti fram á milli jóla og nýárs og var beðið með eftirvæntingu að komast í verkefni með A landsliðin eftir næstum tveggja ára hlé.

Um kvöldmatarleytið í kvöld var orðið ljóst að hertari reglur í Luxemborg gera það að verkum að ekki væri skynsamlegt að halda mótið og því þannig frestað. Ekki er komið á hreint hvort mótið muni fara fram á næstu mánuðum og kemur það í ljós síðar.