Íslensku stelpurnar mættu ákveðnar til leiks á móti Írlandi og unnu fyrstu tvær hrinurnar mjög sannfærandi. Írland lét finna fyrir sér í þriðju hrinu og var jafnt á öllum tölum en það fór svo að Írland vann hrinuna 25-23.
Í fjórðu hrinu tóku íslensku stelpurnar við sér og kláruðu hrinuna 25-18 og leikinn þar með 3-1. Þrjú stig í hús og leikur við Færeyinga á sunnudaginn kl. 17:00 sem verður að öllum líkindum leikurinn sem sker úr um það hvort liðið endar í 2. sæti á mótinu. Það þarf mikið að gerast svo að Skotland klúðri 1. sætinu en það skýrist allt eftir leik þeirra við Írland sem hefst kl. 14:00.
Leikjunum er streymt af YouTube rás BLÍ
Jason Ívarsson sendi Blaksambandinu smá texta eftir leikinn við San Marino og hvernig framhaldið er hjá strákunum okkar í Færeyjum. Gefum honum orðið.
Undirbúningurinn fyrir leikinn gegn San Marino var hefðbundinn. Þjálfararnir fóru yfir stöðuna með leikmönnum einum sér eða fleirum. Sjúkraþjálfarinn meðhöndlaði þá sem þess þurftu með.
Í fyrstu tveimur hrinunum voru okkar menn alltaf nokkrum stigum á eftir andstæðingunum og virtust á stundum ekki finna rétta taktinn en áttu samt góða spretti á milli. Hrinurnar töpuðust báðar 25-18. Það sama virtist vera uppi á teningnum í þriðju hrinunni en strákunum tókst með miklum krafti og baráttuanda að jafna í 21-21. Þá tók við æsispennandi kafli þar sem jafnt var á öllum tölum upp í 27-27. Baráttuandinn hélt áfram og skilaði strákunum sigri í hrinunni 29-27 eftir 30 mínútur. Það var mjög mikilvægt að vinna þessa hrinu og finna taktinn frá í gær á ný. Fjórða hrinan var jöfn lengst af en að lokum vann San Marínó hrinuna 25-20.
Þegar á heildina er litið þá mega strákarnir vel við una. Þeir eru að spila við eldri og mun reynslumeiri lið en þau geta engan veginn bókað sigur fyrirfram gegn strákunum.
Þjálfararnir skiptu spilatímanum vel á milli allra leikmannanna. Einn leikmaður sneri sig aðeins á ökkla en verður vonandi tilbúinn í síðasta leikinn sem er klukkan 16.00 á morgun (sunnudag) gegn heimamönnum, en þeir töpuðu 2-3 fyrir San Marino í gær (föstudag).
Það var víst eitthvað ólag á streyminu svo að það var fundin ný leið eftir slóðinni:
https://chromecast.tv.fo/volley/volley.html
Það eru myndir frá leikjunum inni á facebook síður færeyska sambandsins.