Á degi þrjú á Smáþjóðaleikunum mættu bæði landsliðin, liðum Lúxemborgar. Konurnar klukkan 11 og karlarnir klukkan 14.
Kvennaliðið átti slaka byrjun og gerði liði Lúxemborgar auðvelt fyrir að vinna fyrstu tvær hrinurnar 25:12 og 25:22. Þá var komið að stelpunum okkar að sýna hvað í þeim býr. Þær hrukku í gang og unnu næstu tvær hrinur, 25:17 og 25:21. Í æsispennandi loka hrinu sem var nokkuð jöfn framan af átti íslenska liðið meira inni og kláraði 15:11 og þar með leikinn 3:2. Liðið mætir Liechtenstein í fyrramálið kl. 07:00 (ísl).
Í hinum kvennaviðureignum dagsins vann Kýpur Liechtenstein 3-0 og Svartfjallaland vann San Marínó 3-0.
Að kvennaleiknum loknum var komið að körlunum. Allar hrinurnar voru jafnar í byrjun. Í fyrstu hrinu gaf lið Lúxemborgar í og kláraði þægilega 25:16. Strákarnir okkar voru sterkari í annarri hrinu. Þeir jöfnuðu 13:13, komust yfir og misstu aldrei forystuna nema rétt í lokinn þegar Lúxemborg jafnaði 24:24. Íslenska liðið hélt haus og kláraði 26:24. Lið Lúxemborgar var of öflugt fyrir Ísland í 3. og 4. hrinu og unnu báðar 25:17 og þar með leikinn 3:1. Liðið mætir Mónakó á morgun kl. 14:00 (ísl).
Hinar karlaviðureignir dagsins voru 3:1 sigur Svartfjallalands á Kýpur og þegar þetta er skrifað er staðan 1:1 í hrinum í leik San Marínó og Mónakó.