Blaksamband Íslands hefur unnið að því að koma á laggirnar þjálfaramenntun BLÍ í samvinnu við fræðslusvið ÍSÍ. Sú vinna hefur skilað okkur á þann stað að sambandið er nú tilbúið að bjóða uppá námskeið fyrir fyrstu tvö stig þjálfaramenntunar „BLÍ 1 Þjálfarastig“ og „BLÍ 2 Þjálfarastig“ um miðjan júní. Þar er um að ræða fjarnámskeið að hluta til sem endar á verklegu námskeiði í júlí. Þeir sem vilja klára BLÍ 2 Þjálfarastig vinna lokaverkefni á hæfileikabúðum BLÍ í ágúst. Dagsetningar og skráningar á BLÍ námskeiðin verða auglýstar betur á næstu dögum.
Stefnt er síðan að því að hægt verði að bjóða uppá „BLÍ 3 Þjálfarastig“ í desember og „BLÍ 4 Þjálfarastig“ og „BLÍ 5 Þjálfarastig“ árið 2021.
Stigin eru þannig sett upp að þátttakendur taka almennan þjálfarahluta hjá ÍSÍ og sérhæfðan blak hluta hjá BLÍ. Til að fá stigin að fullu metin þarf því að klára sambærileg námskeið hjá bæði ÍSÍ og BLÍ (þannig er t.d. námskeiðin ÍSÍ 1 + BLÍ 1 = BLÍ 1 Þjálfarastig o.þ.h.).
Í ljósi ástandsins sem nú er uppi hefur ÍSÍ ákveðið að bjóða uppá námskeiðin ÍSÍ 1, ÍSÍ 2 og ÍSÍ 3 á næstu vikum og þarf að skrá sig fyrir 20. apríl (sjá hér).
Reiknað er með að ÍSÍ námskeiðunum sé lokið um miðjan júní og þá geta þjálfarar haldið áfram og tekið BLÍ 1 eða BLÍ 2 í beinu framhaldi af ÍSÍ námskeiðunum.
Þjálfarastigin eru „Stigvaxandi“ og því ekki hægt að hoppa t.d. beint í BLÍ 3 ef ekki er búið að klára BLÍ 1 og BLÍ 2.
BLÍ 1 Þjálfarastig er almenn blakþjálfaramenntun ætluð fyrir íþróttakennara í grunnskólum og þjálfara sem sinna iðkendum yngri en 12 ára.
- Samanstendur af námskeiðunum ÍSÍ 1 og BLÍ 1
- Forkrafa er að hafa lokið grunnskólaprófi
BLÍ 2 Þjálfarastig er almenn blakþjálfaramenntun sem snýr að 6 manna blaki og er ætluð þjálfurum sem þjálfa yngri flokka frá 12 ára og uppúr, lið í neðri deildum fullorðinna og öldungalið.
- Samanstendur af námskeiðunum ÍSÍ 2 og BLÍ 2
- Forkrafa er að hafa að fullu lokið BLÍ 1 Þjálfarastigi og vera orðinn a.m.k. 18 ára.
BLÍ 3 Þjálfarastig er sérhæfð blakþjálfaramenntun hugsuð fyrir þjálfara sem þjálfa lið í efstu deildum Íslandsmótsins.
- Samanstendur af námskeiðunum ÍSÍ 3 og BLÍ 3
- Forkrafa er að hafa að fullu lokið BLÍ 2 Þjálfarastigi og vera orðinn a.m.k. 20 ára
Reikna má með að eftir 3 – 5 ár mun BLÍ gera þá kröfu að allir þjálfarar, hjá félögum sem taka þátt í Íslandsmóti, hafi lokið viðeigandi menntun og séu þannig með leyfi til þjálfunar. Það á þó eftir að teikna það upp og verður auglýst betur seinna.
BLÍ skorar á öll aðildarfélög að hvetja og aðstoða þjálfara sína til að skrá sig á þau námskeið sem henta þeirra vinnu innan félagsins svo þeir séu búnir að klára almenna hlutann áður en BLÍ setur námskeiðin BLÍ 1 og BLÍ 2 af stað.