Stjórn Blaksambands Íslands og formenn félaga með lið í úrvalsdeild og 1. deild funduðu á mánudag um framhald deildakeppni og úrslitakeppnina. Á fundinum kom út sameiginleg niðurstaða um að leyfa ekki áhorfendur á þeim leikjum sem eftir eru í deildakeppninni vegna stöðunnar í COVID 19 faraldrinum í samfélaginu.
Sama staða var á blakleikjum eftir áramótin og út febrúar og geta blakfélögin farið eftir sömu reglum og giltu þá um áhorfendur. Aðeins mega 5 úr stjórn hvors félags fylgjast með leik og 2 frá Blaksambandinu. Grímuskylda er á þessa aðila auk þess sem sóttvarnarfulltrúi félags þarf að skrá nafn, kennitölu og símanúmer þeirra.
Allir leikir í Mizunodeildum karla og kvenna eru í streymi og má finna hér, áhorfendum að kostnaðarlausu.