Síðasta dag Smáþjóðaleikanna mættu konurnar gestgjöfunum í Svartfjallalandi og karlarnir Kýpverjum. Fyrir leikina voru konurnar búnar að tryggja sér bronsverðlaun, en karlarnir voru búnir að tapa öllum sínum leikjum.
Konurnar mættu Svartfjallalandi klukkan 11. Svartfjallaland er í 23. sæti evrópska styrkleikalistans og Ísland í því 40. og því var búist við erfiðum leik. Svartfellingar komu ákveðnar til leiks og unnu fyrstu hrinu örugglega 25:13. Íslenska liðið hékk vel í andstæðingunum í annarri hrinu sem endaði þó með svartfellskum sigri, 25:19. Stelpurnar okkar áttu frábæra þriðju hrinu en það dugði því miður ekki til og Svartfjallaland kláraði hrinuna 25:21 og þar með leikinn 3:0. Svartfjallaland tók gull á mótinu, Kýpur silfrið og íslensku stelpurnar koma heim með brons.
Karlarnir höfðu fyrir leikinn tapað öllum sínum leikjum, en átt góðar skopur inn á milli og tekið hrinu á móti öllum liðunum. Þeir mættu Kýpverjum í dag klukkan 16. Kýpverjar komu af krafti inn í leikinn og tóku fyrstu hrinu 25:15. Íslenska liðið átti slaka aðra hrinu og voru undir 11:1 á einum tímapunkti. Þeir náðu þó aðeins að klóra í bakkann, en töpuðu 25:13. Í þriðju hrinu breytti Christophe þjálfari miklu í byrjunarliðinu, en allt kom fyrir ekki og strákarnir okkar töpuðu 25:16 og þar með leiknum 3:0. Svartfellingar unnu mótið, Kýpverjar urðu í öðru sæti og Lúxemborg endaði í þriðja sæti.
Í kvöld fer fram verðlaunaafhending og heimför verður seinni partinn á morgun.